Gylfi Kristjánsson
f. 18. ágúst 1948 - d. 29.10. 2007
Gylfi Kristjánsson, sonur Kristjáns Gíslasonar, var mikill veiðimaður, sannur sínum hugsjónum, sannur sínum félögum og vinum er margir voru – og ekki síst sannur öllum þeim fjölmörgu veiðimönnum er vildu reyna hans flugur. Á margan hátt var Gylfi einstakur veiðimaður. Hann smíðaði sjálfur sínar flugur – sú smíði tók yfirleitt skamman tíma, en árangurinn lét ekki á sér standa. Gylfi valdi sér félaga til veiða – honum var illa við veiðimenn sem töldu sig vita allt – veiðimenn sem töldu sig yfir aðra hafna. Um þetta vorum við alltaf sammála. Ef Gylfi fann sér félaga sem voru til í að ræða málin – deila spurningum – ræða málin fordómalaust – þá var Gylfi til í að deila niðurstöðunni.
Gylfi hannaði á nokkrum árum fimm silungaflugur sem gert hafa garðinn frægan á Íslandi. Krókurinn, Mýsla, Beykir, Beygla og Loðmundur eru til í boxum allra íslenskra silungsveiðimanna og hafa reynst afar veiðnar flugur. Gylfi hannaði vitaskuld fleiri flugur sem við munum setja í sölu hér á Krafla.is í framtíðinni.
Fráfall Gylfa, langt fyrir aldur fram, var gríðarlegt áfall. Við sem þekktum Gylfa betur en aðrir erum ennþá harmi lostin. Gylfi átti sér fjölmarga vini sem enn syrgja góðan félaga.
Minn ástkæri bróðir var sannur félagi á veiðislóð. Og alveg sérstakur vinur á árbakkanum. Aldrei leið mér betur en þegar ég átti í vændum veiðitúr og á stöng með Gylfa. Hann bar mikla virðingu fyrir náttúrunni og lagði alltaf mikla áherslu á að farið væri í einu og öllu eftir settum reglum við veiðiskapinn. Húmor Gylfa var einstakur og hann var eiginlega jafn skemmtilegur og hann var góður veiðimaður.
Guð blessi minningu Gylfa Kristjánssonar.
Stefán Kristjánsson